Greinasafn fyrir flokkinn: MSÍ

Hér eru opinberar fréttir frá Mótorhjóla- og snjósleðasambandi Íslands.

Hver verður fyrsti Íslandsmeistarinn í EnduroCross ?

Hver verður Íslandsmeistari?

Á morgun laugardaginn 5. febrúar munu Vélhjólaíþróttaklúbburinn og MSÍ bjóða til mótorsportveislu í Reiðhöllinni í Víðidal. Þetta er þriðja og síðasta keppnin í Íslandsmeistaramótsröð í Endurokrossi innandyra og nú verður spennan í hámarki.

Skemmtun fyrir áhorfendur og pressa á keppendur

Brautin í EnduroX keppnum er yfirleitt stutt en með fjölda hindrana og reynist mörgum ótrúlega erfið og í keppni sem þessari er því við öllu að búast. Þetta verður síðasta keppni vetrarins og vænta má að menn mæti vel stemmdir og grimmir til leiks þar sem fyrsti Íslandsmeistaratitillinn er í húfi.
Brautin um helgina mun bjóða upp á harða keppni en keppendur þurfa að berjast við stökkpalla, staurabreiður, hleðslusteina- og dekkjahrúgur, kubbagryfju og margt fleira.

Hörð og spennandi keppni

Allir bestu torfæruhjólaökumenn landsins munu mæta til keppni hungraðir í að komast á verðlaunapall svo búast má við hörkukeppni. Fyrstu menn í hverjum riðli og „Síðasta séns“ komast áfram í lokariðillinn.  Þar verður allt lagt undir og búast má við harðri keppni og mikilli skemmtun fyrir áhorfendur.

Glæsileg verðlaun

Sigurvegarar keppninnar verða verðlaunaðir með glæsilegum verðlaunum. Öll keppnisgjöld renna óskipt til þeirra sem keppa í lokariðlinum.

Endurokrosskeppnir af þessu tagi njóta mikilla vinsælda í Evrópu og Bandaríkjunum. Veðrið spillir oft fyrir keppnishaldi hér á landi en Reiðhöllin tryggir að svo verði ekki.  Keppnin er haldin öllu hjólafólki til skemmtunar en ekki síður sem fjáröflun fyrir Vélhjólaíþróttaklúbbinn til að halda áfram uppbyggingarstarfi félagsins.

Látið því sjá ykkur á morgun laugardaginn 5. febrúar kl. 14-16 í Reiðhöllinni

Munið skráninguna í EnduroCrossið – uppfært

Skráningunni í EnduroCrossið lýkur í kvöld klukkan 21 !!

Uppfært – Brautin verður með enn betra flæði en áður, færri hindrunum og meiri hraða.

Uppkast af brautinni

Lokaumferðin í EnduroCrossi 5. febrúar

Smellið á og prentið út plakat!

Skráning er hafin á vef MSÍ fyrir þriðju og síðustu keppnina í Íslandsmótinu í EnduroCrossi. Keppnin verður haldin í Reiðhöllinni í Víðidal og fer fram 5.febrúar klukkan 14.

Mikil spenna er fyrir keppnina þar sem fyrsti Íslandsmeistarinn í greininni verður krýndur. Kári Jónsson er með 7 stiga forystu á Daða Erlingsson en eins og menn vita geta hlutirnir snúist fljótt við í EnduroCrossinu, jafnvel á síðasta hring.

Hér er facebook síðan fyrir keppnina.

Íscross – fréttatilkynning og dagskrá

Það lítur út fyrir að fyrsta umferðin í Íslandsmótinu í Ískrossi ætli að verða  mjög sterkt mót en nú þegar er vitað að eftirfarandi mæta:

  • Kári Jónason Íslandsmeistari í enduró og akstursíþróttamaður ársins
  • Ingvi Björn Birgisson Íslandsmeistari í enduro B
  • Guðbjartur Magnússon Íslandsmeistari í motocross 85cc flokki
  • Bryndís Einarsdóttir akstursíþróttakona ársins
  • Signý Stefánsdóttir Íslandsmeistari í motocross kvennaflokki
  • Andrea Dögg Kjartansdóttir Íslandsmeistari í ískrossi kvennaflokki

Auk þessara mæta margar gamlar og nýjar kempur í mótið. Minnt er á að skráningu lýkur kl 21.00 í kvöld og að engar undantekningar frá þeirri reglu eru leyfðar. Ísinn á Mývatni er jarðýtuheldur og eru þeir í Akstursíþróttafélagi Mývatnssveitar þekktir fyrir vel skipulögð mót. Ekki spillir að öllum keppendum er boðið í Jarðböðin að lokinni keppni. Veðurspáin er hagstæð, en það spáir suðvestanáttum með með björtu veðri og lítilsháttar frosti norðaustanlands. Meðfylgjandi er dagskrá fyrir mótið og eru eftirfarandi í framkvæmdastjórn mótsins:

Lesa áfram Íscross – fréttatilkynning og dagskrá

Skráing í Íscrossið lýkur klukkan 21 í kvöld

Við minnum fólk á að skráning líkur klukkan 21 í kvöld á fyrstu umferðinni í Íslandsmótinu í íscrossi. Þetta verður svo reglan hér eftir, að skráning í Íslandsmót lýkur klukkan 21 á þriðjudagskvöldi fyrir keppni.

Þegar þetta er ritað eru 22 skráðir til leiks. Keppnin verður annars haldin á Mývatni og hér er fréttin um keppnina

Fyrsta umferðin í Íscrossi eftir rúma viku

1. umferð Íslandsmótsins í Ís-Cross fer fram á Mývatni laugardaginn 29. janúar. Skráning er hafin á www.msisport.is og lýkur á þriðjudagskvöld.

Keppendur ATH. nú rennur skráningartími alltaf út kl: 21:00 á þriðjudagkvöldi fyrir keppnishelgi. Ekki verður um neinar undantekningar að ræða með skráningu eftir að skráningarfrestur rennur út. Við viljum benda keppendum á að athuga aðgang sinn að heimasíðu MSÍ tímanlega, ekki verður tekið við símtölum á elleftu stundu ef keppendur ná ekki að skrá sig inn.

Þeir sem eru í vandræðum með innskráningu þurfa að hafa samband við formann þess aðildarfélags MSÍ sem viðkomandi er skráður í. Það er hægt að skrá sig inn á heimasíðuna án þess að klára skráningu í viðkomandi keppni til þess að athuga hvort innskráning virkar.

Keppt verður í eftirfarandi flokkum:

  • Opnum flokki
  • Vetrardekkjaflokki
  • Kvennaflokki
  • Unglingaflokki (keyrir með Vetrardekkjaflokks ef 5 eða fleiri skrá sig)
  • 85cc flokki (keyrir með Kvennaflokki ef fleiri en 5skrá sig).

Öllum keppendum er boðið frítt í Jarðböðin að keppni lokinni og er um að gera að nýta sér það. Akstursíþróttafélag Mývatnssveitar sér um keppnishaldið og eins og flestir vita klikkar það ekki.