Klausturskeppnin, Transatlantic Offroad Challenge 2011 verður haldin 28. maí í 10. sinn
Ein fjölmennasta íþróttakeppni og langstærsta akstursíþróttakeppni sem haldin hefur verið hérlendis, Klausturskeppnin svokallaða verður haldin á Kirkjubæjarklaustri um 28. maí nk. Skráning í keppnina hefst fimmtudagskvöldið 10. mars kl. 22. Síðastliðið ár skráðu yfir 400 manns sig til keppni á innan við sólarhring og því vissara að vera viðbúinn þegar skráning hefst þar sem keppendafjöldi í ár takmarkast við 400 manns.
Vélhjólaíþróttaklúbburinn og MSÍ, Mótorhjóla- og snjósleðasamband Íslands standa að keppninni ásamt landeigendum á Ásgarði við Kirkjubæjarklaustur. Keppnin á síðasta ári laðaði að sér um 460 keppendur. Þá reyndist brautin mörgum keppendum og hjólum gríðarlega erfið en stór mýrarfláki reyndist ófær er leið á keppnina sem varð til þess að brautinni var breytt þegar leið á keppnina. Undanfarið hefur gríðarleg vinna verið lögð í að gera keppnissvæðið betur úr garði, slóða hefur verið ýtt upp í gegnum mýrina alræmdu auk þess sem brautin hefur verið lengd.