KTM hefur verið þekkt merki í hjólasportinu í tugi ára en hingað til hefur þeim ekki tekist að sigra í virtustu Supercross seríu í heiminum, AMA Supercrossinu í Bandaríkjunum. Það breyttist í nótt þegar Ryan Dungey skaust fyrstur úr holunni og leiddi alla 20 hringina í Pheonix í Arizona. Þetta var önnur umferðin í ár en í fyrstu umferðinni hafnaði Dungey í þriðja sæti sem var fyrsta skiptið sem KTM komst á pall í þessum flokki. Óhætt er að segja að koma Roger DeCoster liðsstjóra og svo Dungeys auðvitað líka hafi verið stórt skref fyrir KTM sem nú virðist vera að borga sig.
En aftur að keppninni, þó svo að Dungey hafi leitt allan tímann er langt frá því að einhver lognmolla hafi verið í Arizona. Meistarinn og forystusauðurinn, Ryan Villopoto, datt á fyrsta hring og þegar hann var kominn á lappir aftur var hann um það bil síðastur. Liðsfélagi hans hjá Kawasaki, Jake Weimer, náði öðru sætinu og hélt því til loka. Hans besti árangur í SX flokki.