EF það er eitthvað eitt á torfæruhjóli sem verður að halda vel við og stilla rétt, þá er það fjöðrunin. Þrátt fyrir það eru ótrúlega margir sem láta það sitja á hakanum að stilla fjöðrunina við sitt hæfi og missa þar með af tækifæri til að láta aksturseiginleika hjólsins njóta sín. Til þess að fá botn í þessi mál skulum við leita til manns sem er flestum fróðari þegar kemur að fjöðrun. Gefum Ragnari Inga Stefánssyni í Vélhjólum og sleðum orðið og athugum hvort hann lumi ekki á góðum húsráðum fyrir hjólafólk.
Ragnar: Það skiptir öllu máli að stilla hjólið fyrir þína þyngd, tegund af akstri og getu. Þegar fjöðrunin virkar rétt ertu líka öruggari, ferð sjaldnar á hausinn og endist lengur við bæði leik og keppni!
Við byrjum á að athuga hvernig hjólið er stillt miðað við þína þyngd og um leið athuga hvort þörf sé á stífari eða mýkri gormum til að fá allt til að virka rétt!
Byrjum á afturfjöðruninni. Það eru nokkur illþýðanleg hugtök sem koma við sögu þegar fjöðrun er annars vegar og það fyrsta er svokallað „sag“, þ.e. hversu mikið afturfjöðrunin sígur saman þegar að þú situr á hjólinu. Það á að vera ca 1/3 af heildar slaglengd fjöðrunarinnar. 125 cc og stærri hjól ættu að hafa frá 90 – 100 mm „sag“ og 80 cc hjól eiga svo að hafa 80-90 mm „sag“.