Greinasafn fyrir flokkinn: Umhverfismál

Hestar og hjól

Þessa dagana er mikið um að það sé verið að koma hestum í haga. Oftar en ekki nota hestamenn tækifærið og ríða í sveitina, hvort sem þeir eru á leið á suðurlandið, Borgarfjörðinn, eða þaðan af lengra. Mikil traffik hesta er því á slóðum og vegum á þessum svæðum og á leiðum út frá borginni. Biðjum við alla hjólamenn að sýna ýtrustu varkárni og tillitsemi, fara út í kant og drepa á hjólunum og bíða þar til að ljóst þykir að hestarnir fælist ekki vélarhljóðið. Tillitsemi kostar ekkert.

Umhverfisnefndarbæklingurinn

Bæklingurinn sem umhverfisnefnd VÍK gaf út er nú kominn inn á vefinn og er linkurinn á hann hér til hliðar. Þeir örfáu sem ekki hafa kynnt sér innihaldið hafa nú tækifæri til þess á aðgengilegan hátt.

Hjóla-paradísin

Ísland er án vafa eitthvert flottasta enduro land í heimi.  Við eigum ógrynni af vegum, vegarslóðum, hestatroðningum og rolluslóðum sem skera landið þvert og endilangt.  Því til viðbótar liggja þessir slóðar um eitt stórbrotnasta land heimsins, út frá jarðfræðilegu- og/eða fegurðarsjónarmiði.  Við enduró-hjólamenn höfum þann lúxus að upplifa tvöfalda hamingju.  Að fá að hjóla og um leið ferðast um Ísland.
Ísland er búið að upplifa einhvern tískutopp undanfarin 3 misseri og virðast engin lát á þessum toppi.  Alltaf verður Ísland, einhvernveginn, vinsælla og vinsælla.  Það telst ekki tiltökumál í dag, 11 janúar, að einhver grein birtist í þekktu tímariti erlendis um Ísland, eða að einhver risa sjónvarpsstöð sýni einhvern þátt um landið.  Þetta var ekki „normið“ fyrir 10 árum.
Það að við hjólamenn, höfum þetta gríðarlega frelsi stýrist að mestu leyti á því að við höfum verið mjög fáir.  Undanfarið hefur hinsvegar orðið gríðarleg fjölgun.  Hver veit nema ferðamenn fara að ferðast á hjólum einnig.  Þetta frelsi okkar til að njóta landsins og hjólamennskunnar getur breyst á örskotsstundu.  Svo virðist sem tiltölulega auðvelt sé að koma því í kring við yfirvöld að setja upp skilti þar sem fram kemur að akstur vélhjóla er bannaður.  Það mun hinsvegar reynast óvinnandi að ná þessu skilti niður aftur.  Landið þolir miklu fleiri hjólamenn og ekkert þarf að breytast svo lengi sem við höfum hugfast að aka ekki utan vega og sýna fyllstu kurteisi gagnvart öðrum vegfarendum.  Það yrði dapurt ef einn eða tveir hjólamenn yrðu þess valdir að einhver ákveðin leið lokast.  Leið sem kannski á annað hundrað hjólamenn hafa ekið ár eftir ár, án vandræða.
Sú hugsun, að þetta er „hálfgerð“ auðn, að enginn sjái til mín eða að ræfils landeigandinn á hvort eð er of margar rollur er í raun algert aukaatriði.  Aðalatriðið er að með þessu atferli er verið að skemma fyrir okkur hjólamönnum.  Nú þegar hafa verið framkvæmd mörg skemmdarverk.  Sem dæmi má nefna innanbæjarakstur.  Fyrir ekki meira en 3 árum var hægt að aka í rólegheitunum, beint út úr bílskúrnum og út úr bænum, framhjá lögreglustöðinni í Hafnarfirði, mæta tveimur lögreglubílum og veifa þeim án neinna afskipta þó svo viðkomandi væri á númerslausu hjóli eða crossara.  Í dag er þetta ekki hægt, þökk sé fíflaskap 1-4 manna innanbæjar á samsvarandi hjólum.  Ár eftir ár  aka tugir hjólamanna um viðtekna slóða án neinna vandræða.  Síðan kemur hneykslisfrétt einn daginn í fjölmiðlum um eitt eða tvö hjólför utan vega og öll þjóðin og þar á meðal yfirvaldið, dæmir alla hjólamenn.
Aðalatriðið er að með slíku framferði völdum við okkur sjálfum og félögum okkar margfallt meiri skaða.
En hvað um það.  Með öllum þeim vor-leysingum sem eiga sér stað í dag þá er svosem allt í lagi að birta smá vor-hugleiðingar fyrir okkur íslensku hjólamennina.  Stolt okkar er hinsvegar landið okkar og það kemur því engum okkar á óvart að BMW hefur sett „exotic ride“ titil á grein um Ísland á vefsíðu sína.  Sjá vefsíðu.  GM.

Svínaskarð og Svínadalur

Ósk hefur borist vefnum um að komið verði á framfæri beiðni til hjólamanna að aka ekki í gegnum Svínaskarð og Svínadal næstu vikur.  Tugir hesta eru þar á beit og tryllast þeir þegar keyrt er í gegnum dalinn.  Bændur með hesta á beit eru orðnir snælduvitlausir þar sem hestarnir verða með öllu óviðráðanlegir og fást ekki á beit fyrr en löngu síðar.  Síðan endurtekur leikurinn sig þegar næsti hjólamaður kemur.