Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu/visir.is í morgun:
Hestar eru ekki lengur notaðir við leitir og smölun í Skaftárhreppi. „Menn voru sammála um að fara ekki með hesta á fjall, meðal annars vegna þess að við höfum ekki lengur hesthús við afréttarkofann. Slíkt þótti ekki gott áður fyrr og ekki heldur í dag. Auk þess erum við búin að taka tæknina í þjónustu okkar,“ segir Gísli Halldór Magnússon, fjallkóngur til 25 ára og bóndi að Ytri-Ásum í Skaftárhreppi, um þá hefð sem skapast hefur við smölunina. Hann segir fjórhjól hafa verið notuð með hestum til smölunar í aldarfjórðung. „Undanfarin þrjú til fjögur ár höfum við þó eingöngu verið á fjórhjólum.“
Fjallkóngurinn segir landið þola hesta miklu verr en fjórhjól. „Ef við værum allir á jálkum væri þetta miklu meira krass. Ég veit að vísu að menn geta gleymt sér augnablik í hita leiksins. Ég hef brýnt fyrir mönnum að vera ekki að trylla á þessu að óþörfu. Það skiptir hins vegar engu þótt það komi för í svörtum sandi.“
Gísli Halldór kveðst hafa skoðað vegsummerki eftir sjálfan sig frá því í fyrra. „Ég hafði ekið um á jeppa um grjót og klappir og ofan í dýjamosa. Förin í mosanum voru hræðilega ljót strax á eftir. Þegar ég fór núna til þess að skoða þetta sáust engin för. Svo var útlendingur sektaður í fyrra fyrir að keyra ofan í dýjamosa.“