Góðir hálsar!
Nú fer í hönd árlegur tími þýðunnar. Þá er gríðarlega nauðsynlegt að vera ekki að spóla um í drullunni sem er allsráðandi, enda flokkast slíkt sem hrein og bein skemmdarstarfsemi.
Einhver van-hugsuður ók slóða, hér fyrir ofan höfuðborgina í fyrra, sem leiddi til þess að þeir voru alveg hundleiðinlegir fram eftir öllu sumri.
Aflið ykkur upplýsinga um stöðuna á slóðunum áður en lagt er í’ann – og snúið strax við ef ástandið er eitthvað annað en gott.
Bolalda kemur þokkaleg undan vetrinum og verður farið í það fljótlega að ýta burt snjósköflum og lagfæra verstu úrrennslin.
Greinasafn fyrir flokkinn: Umhverfismál
Lögin samþykkt
Hið háttvirta Alþingi Íslendinga hefur samþykkt breytingar á lögum um vörugjöld af bifreiðum og bifhjólum (sjá frétt hér). Lögin höfðu talsverða þýðingu fyrir þá sem stunda íþróttir á mótorhjólum því vörugjöld af sérsmíðuðu keppnishjóli(ekki til notkunar á götum) hefur hér með verið fellt niður.
Búast má við að motocrosshjól muni fljótlega lækka í verði um sirka 20% og verður að teljast líklegt að motocrossið og enduroið muni eflast talsvert í kjölfarið. Þetta mun eflaust gefa fleirum kost á að stunda íþróttina, ungum sem öldnum. Einnig inní lögunum er ákvæði um að rafmagnshjól séu undanþegin vörugjaldi þannig að þau ættu einnig að lækka í verði og verða að raunverulegum kosti í sumum tilvikum
Vilja skilgreina hugtakið „vegur“
Tekið af mbl.is
Drög að frumvarpi um breytingartillögur á náttúruverndarlögum er nú opið til umsóknar.
Í drögunum er meðal annars lagt til að ákvæði í náttúruverndarlögum sem lúta að utanvegaakstri verði gerð skýrari. Þannig stendur til að skilgreina hugtakið „vegur“ í lögunum en hingað til hefur verið vísað til hugtakaskýringar umferðarlaga. Skilgreining á hugtakinu „vegur“ er rúmt í umferðarlögum og hafa mál sjaldnast leitt til sakfellingar fyrir akstur utan vega.
Ekki stendur þó til að breyta 17. gr. náttúruverndarlaga sem bannar akstur utan vega. Hins vegar kunna undanþáguheimildir að breytast.
Frumvarpsdrögin má finna hér.
Motocross vs MotoHross
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=xxiFgGx_7Ck&NR=1[/youtube]Það hefur lengi verið í umræðunni hve illa það fer í hross að mæta vélhjóli. Það má heldur ekki draga neitt úr nauðsyn þess að vélhjólafólk síni ítrustu varfærni þegar reiðmenn eru í nánd. Við vélhjólafólk getum alltaf drepið á hjólunum og látið fara lítið fyrir okkur ef þarf – en reiðfólk hefur ekki sömu möguleika. Hrossin eru misjöfn og á þeim verður ekki slökkt. Það er því gríðarlega mikilvægt að rétt sé staðið að samskiptum hjóla og hrossa (sjá frétt hér á undan).
Hér er hins vegar skemmtilegt myndband frá Evrópu sem sýnir að með réttri æfingu þá er ýmislegt mögulegt.
Akstur á Bolaöldusvæðinu
Það er kannski þegar komið í gleymskubókina hjá mörgum – en það eru samt ekki nema fimm ár síðan VÍK fékk afnot af Bolaöldusvæðinu. Fram að þeim tímapunkti var ekkert svona svæði aðgengilegt og samningurinn við Ölfuss um afnot af svæðinu kærkominn tímamótagjörningur.
Samningurinn var hins vegar ekki á þeim nótunum að við mættum sprauta um allt svæðið og spóla það í klessu á núll komma þremur!
Af gefnu tilefni er fólk beðið um að halda sig við slóðana sem eru á svæðinu og búa alls ekki til nýja. Sérstaklega er beðið um það í samningnum, að ekki sé keyrt upp í Ólafsskarðið. Vinsamlegast hjálpið til við að virða þessi tilmæli.
Er ekki annars bara allt gott að frétta..!?
Veðrabreytingar
Veður breytist oft og hratt hér á landi.
Nú t.d. er allt í einu 5 stiga hiti, eftir að jörð hefur verið frosin í einhvern tíma.
Aðstæður eru því eins og að vori. Vatn situr í efstu lögum jarðvegarins og drullusvöð myndast. Hafið þetta endilega í huga og sleppið öllum akstri tví- og fjórhjóla þegar svona aðstæður koma upp. Skemmdirnar sem hljótast af slíku brölti eru fráleitt virði þeirrar skemmtunar sem fæst út úr einum túr. Einn svona túr, eins manns, getur kostað tóm leiðindi í langan tíma fyrir alla sem á eftir koma.