Greinasafn fyrir flokkinn: Unglingar

Fyrir þá sem eru 15 til 22 ára

Fyrir hvern er þetta gert?

Mynd: Halldór Magnússon
Frá Klaustri 2010

Vélhjólaíþróttaklúbburinn verður 34 ára á þessu ári. Í gegnum árin hafa margir lagt hönd á plóginn við uppbygginguna. Ekki bara þeir sem setið hafa í stjórn til hvers tíma, heldur ekki síður fjöldi annarra hjálparkokka, sem hafa verið tilbúnir að stökkva til þegar t.d. þarf að halda keppnir. Heldur færri mæta svo sem, þegar taka á til á klúbbsvæðinu, en sem betur fer þá hefur verið hægt að treysta á ákveðna aðila sem á óeigingjarnan hátt leggja bæði tíma og jafnvel eigið fé til uppbyggingar á félagsstarfinu. Við sjáum öll merki þessa í Bolaöldu, þar sem sprottið hefur upp hreint mögnuð aðstaða á bara fimm árum.
Næst á dagskrá hjá VÍK er hin árlega Klausturskeppni. Það er engin venjuleg keppni og margir hlakka til þess að geta brunað um á ný-preppuðu hjólinu sínu um þessa frábæru braut, sem þar er í boði. Vel heppnuð keppni og upplífgandi undirbúningsvinna í góðum hópi er einmitt það sem fær fólk til að mæta og leggja sitt að mörkum til félagsstarfsins. Enginn fer fram á borgun því í huga flestra er um sjálfsagt framlag til eigin skemmtunar að ræða. Allir gera sér grein fyrir þessu. Áhugamannafélag eins og VÍK byggir sinn framgang fyrst og fremst á vinnuframlagi félagsmanna og áhuga þeirra fyrir að búa til sína eigin skemmtun. Allir átta sig á því.
Eða hvað? Eru kannski ekki allir með þetta á hreinu?

Lesa áfram Fyrir hvern er þetta gert?

Einar Sigurðsson íþróttamaður KKA 2011

Mynd: Motosport.is
Einar Sigurðsson

Einar Sigurðsson hefur verið kjörinn íþróttamaður ársins hjá KKA. Einar fór einfaldlega á kostum á síðasta ári, var fullkomlega óstöðvandi og ósigrandi. Einar keppti í flokki 85cc hjóla í mototcrossi og vann allar fimm umferðir Íslandsmótsins. Einar gerði ekki endasleppt með þessu því hann keppti ekki bara í motocrossinu heldur líka í enduro akstri í flokki 85cc. Skemmst er frá því að segja að þessi stórkostlegi akstursíþróttamaður sigraði þar allar 6 umferðir íslandsmótsins. Hann sigraði því með fullu húsi stiga bæði í motocrossi og enduro,  sem er einstakt og sýnir hve gríðarlega fjölhæfur og hæfileikaríkur ökumaður Einar er.

Á Unglingalandsmótinu sem haldið var á Egilsstöðum í sumar vann Einar 85cc flokkinn og keppti einnig í 125cc unglingaflokki og varð þar í 3. sæti.

KKA er heiður að hafa Einar í röðum sínum og geta útnefnt hann íþróttamann ársins 2011.

Til hamingju Einar með titilinn.

Tekið af kka.is

Gleðileg Hjólajól. Takk fyrir ánægjulegar stundir á liðnu ári

Öllum þeim sem starfað hafa með okkur á liðnu ári þökkum við fyrir frábært samstarf með von um áframhald á komandi árum. Megi allir hafa ánægjulegar hjólastundir um hjólajólin og vonandi fá allir eitthvað fallegt hjóladót í pakkann sinn. Með von um ánægjulegar hjólastundir á komandi ári.

Stjórn VÍK.


Almennur fundur með keppendum

Almennur fundur með keppendum og aðstandendum verður haldinn miðvikudaginn 30. nóvember kl: 19:30 í salnum hjá Arctic Trucks.
Farið verður yfir keppnishald síðast liðins árs og komandi keppnistímabil rætt. Keppendur og aðstandendur geti komið með fyrirspurnir og hugmyndir og einnig verður farið í gegnum regluverk MSÍ. Allir keppendur og áhugamenn eru hvattir til að mæta og taka þátt. Vel mótaðar hugmyndir og ábendingar geta haft áhrif á uppfærlsur ofl. varðandi komandi keppnistímabil. Karl Gunnlaugsson formaður MSÍ og Hrafnkell Sigtryggsson fromaður VÍK og stjórnarmaður MSÍ munu sitja fyrir svörum og stjórna fundinum.

Eyþór og Bryndís Akstursíþróttamenn ársins hjá MSÍ

Mynd: Reynir Jónsson
Eyþór og Bryndís með verðlaunin

Eyþór Reynisson og Bryndís Einarsdóttir voru um helgina útnefnd sem Akstursíþróttamaður og -kona árins á Lokahófi MSÍ. Titillinn er sá fyrsti fyrir Eyþór en Bryndís hlýtur hann nú þriðja árið í röð.

Eyþór vann í sumar sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í Opnum flokki í motocrossi. Hann vann einnig MX2 flokkinn í ár eins og í fyrra. Hann varð þar með fyrstur til að hljóta báða titlana sama árið. Hann hlaut einnig sinn fyrsta titil í enduro á árinu en hann sigraði í ECC-2 flokknum. Eyþór æfði og keppti erlendis einnig í sumar, bæði á Spáni og í Belgíu. Hann keppti einnig fyrir hönd Íslands á Motocross of Nations í Frakklandi í haust.

Bryndís Einarsdóttir hlýtur titilinn nú í þriðja sinn. Hún keppti í sumar í Heimsmeistarakeppninni, Sænska meistaramótinu og í Íslandsmótinu. Hún endaði í 23.sæti í heimsmeistarakeppninni með 21 stig en hún tók aðeins þátt í 3 umferðum af 7. Í sænska meistaramótinu varð hún í sjötta sæti í MX-Girls og hún keppti í MX-Unglingaflokki hér á Íslandi.

Bryndís er úr Hafnarfirði og Eyþór frá Reykjavík en þau eru bæði 18 ára. Þau verða tilnefnd fyrir hönd MSÍ í keppninni um Íþróttamann ársins sem Samtök íþróttafréttamanna velur.

Aðalfundur VÍK Í KVÖLD.

Aðalfundur Vélhjólaíþróttaklúbbsins verður haldinn í kvöld, 9. nóvember kl. 20, í fundarsal ÍSÍ við Engjaveg. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf, kosning í nefndir og stjórn, skýrsla stjórnar og samþykkt reikninga. 
Stjórn VÍK vonast eftir góðri mætingu félagsmanna á fundinn og líflegum umræðum. Einnig vonumst við eftir góðu fólki til starfa í stjórn sem og í nefndir, enda er það rétti vetfangurinn til að koma skoðunum  á framfæri.