Þá er hið mikla Klaustur Off Road Challenge liðið þetta árið. Keppendur töldu 248 og í startinu voru 123 keppendur. Það raðast misjafnlega í tveggja og þriggja manna lið og svo var góð þátttaka í járn-flokkunum þetta árið.
Við í stjórninni lögðum af stað með það að leiðarljósi að ná aftur „gömlu“ stemningunni sem margir hafa haft á orði við okkur að vanti. Í leiðinni lærðum við ýmislegt um stjórnmál, sagnfræði, löggæslu og svo það hvar þessi keppni stendur nú orðið. Við ákváðum að snúa aftur að gamla tímanum á verðlaunaafhendingunni. Fjölmargir nýttu sér það til þess að skella sér í sund og fá sér gott að borða fyrir hana. Það varð þá reyndar til þess að einhver afföll urðu í verðlaunasætunum þó að vel væri mætt á afhendinguna af gestum og gangandi. Allt það sem við höfum lært á þessari leið þetta árið verður núna sett í vinnu sem snýr að því að gera þessa góðu og glæsilegu keppni enn betri fyrir alla þá sem að henni koma með einhverjum hætti. Upplýsingagjöf verður einnig meiri sem ætti að auðvelda öllum ferlið.
Aðstæður þennan dag geta í alvörunni ekki orðið mikið betri. Við fengum vökvun síðustu dagana fyrir keppni og á keppnisdag hreyfði varla vind eða dropaði. Ég fékk alla veganna ekki önnur viðbrögð en þau að þetta væri algjört æði.
Við höfðum brautina opna á sunnudeginum og það voru þó nokkrir sem nýttu tækifærið og hjóluðu meira þann daginn. Þar á meðal hópur járnkarla sem höfðu hjólað 6 klukkutíma í einstaklingsflokk deginum áður. Ef það er ekki ástríða fyrir sportinu, þá veit ég ekki hvað það er.
Við erum að ná að brúa bilið enn meira í aldri viðstaddra og aðkomu fjölskyldunnar í heild að keppninni. Yngsta kynslóðin gat fengið útrás í hoppikastala sem mætti á svæðið, næsta aldursbil komst í barnakeppnina og þar fyrir ofan gátu aðrir notið sín í stóru keppninni. Við færðum tjaldsvæðið aftur inn í pittinn og veit ég ekki betur en að það hafi bara tekist vel til og að fólk hafi verið mjög ánægt með það.
Einhverjar sögusagnir hafa gengið um það að þetta hafi verið síðasta keppnin á Klaustri. Ástæður hafa verið allt frá nýjum náttúruverndarlögum til nammilandsins í Hagkaup. Á borðinu hjá mér er ekki neitt annað en áframhaldandi vinna að þessari keppni. Þetta eru bara einhverjar flökkusögur. Keppnin verður 2017. Þið sem eruð á Facebook, skuluð skella ykkur á Klausturssíðuna á Facebook og henda í „Like“ á hana ef þið eruð ekki nú þegar búin að því. Einnig bendi ég ykkur á vefsíðu keppninnar sem er á Klausturoffroad.is. Seinni síðan verður tekin til vinnslu og mun verða ítarlegri fyrir næstu keppni. Á Facebook koma svo allar þær tilkynningar sem gætuð þurft að sjá um tímasetningar og slíkt. Á Facebook síðunni má nú finna myndband af fyrsta hringnum árið 2016 eftir Einar Sverrisson. Fyrir þá sem ekki vita, þá er það snillingurinn sem tók á móti þáttökuyfirlýsingunum ykkar í skoðun og hélt utan um keppendur og þeirra mál.
Ég vil þakka öllum þeim sem komu að þessari keppni. Þið eruð of mörg til þess að telja upp hérna og ég hefði ekki trúað því hvað það þarf mörg handtök til þess að svona viðburður geti orðið að veruleika. Takk takk!
Því miður varð eitthvað um meiðsl á keppendum þetta árið. Tveir þurftu frekari aðhlynningu og fóru til Reykjavíkur ýmist með bíl eða þyrlu. Sá sem fór með bíl fékk skrúfur og plötur í fót og er á batavegi núna. Ég hef ekki fengið neinar fréttir af þeim sem fékk far með þyrlunni. Þetta getur því miður verið hluti af þessu áhugamáli okkar en keppnin hefur yfirleitt blessunarlega verið meiðslalítil. Við óskum þeim sem urðu fyrir fyrir meiðslum alls hins besta og góðs bata.
Hér má sjá excel-skjal með úrslitunum. Þau eru tekin úr kerfinu og ættu því að vera skotheld. Ef einhver heldur því fram að þarna sé eitthvað rangt, þá er viðkomandi að ásaka kerfið um að gera tæknileg mistök. Það eina sem gæti ekki verið vegna tæknilegra mistaka væri að einhver væri þarna í röngum flokk. Það er þá tilkomið vegna liða- eða flokkabreytinga á síðustu stundu. Það getur verið erfitt að tryggja að allt slíkt sé 100% svona í blálokin. Þess vegna er mikilvægt að skráning sé rétt og haldi sér fram að keppni. Ef slík mistök er að finna í þessum úrslitum, skrifast það á keppendur að hafa tilkynnt liðabreytingar seint.
Klaustur-2016-Final
Fyrir hönd stjórnar Vélhjólaíþróttaklúbbsins
Sigurjón Snær Jónsson