GFH endurokeppnin á Hellu stóð fyllilega undir væntingum en þetta var í fyrsta sinn síðan 2007 sem keppt var í þessu einstaka keppnissvæði.
Sandur, vatn, meiri sandur og sandsteinsklettar og svo aðeins meiri sandur var jarðvegur dagsins – þvílík snilld. Veðrið kom skemmtilega á óvart, en eftir að úrhellisrigning hafði barið á bílum keppenda langleiðina frá Reykjavík (þeir sem þaðan komu amk) var nær þurrt á Hellu fyrir utan eina og eina skúr sem voru pantaðar til að rykbinda brautina. Brautin var lögð á tiltölulega afmörkuðu svæði í stóra gilinu og niður að ánni og aftur að pittinum.
Guggi og félagar lögðu uþb. 6-7 km langan frábæran endurohring sem bauð upp á allar útgáfur af brölti og tæknilegri skemmtun, hraða kafla og brekkuæfingar sem hristu hressilega upp í röð keppenda yfir daginn. Þar sem búast mátti við vandræðum var búið að leggja góðar hjáleiðir og var gaman að sjá að nær allir keppendur nýttu sér hjáleiðirnar á einhverjum tímapunkti sem segir sitt um erfiðleikastig þrautanna. Lesa áfram GFH enduro 1.0 á Hellu, þvílík skemmtun!