Varðandi væntanlegt Motocross mót á Selfossi n.k. Sunnudag.

3.ju umferð Íslandsmótsins í Motocross sem halda átti á Selfossi s.l. sunnudag var frestað vegna úrhellis rigningar fyrir keppni sem gerði brautina ónothæfa. Einnig setti það miður gott strik í reikninginn að ekki fékkst leyfi sýslumanns fyrir keppni unglinga í 80cc flokki. Strax í gærmorgun (mánudagsmorgun) var sótt um keppni að nýju n.k. sunnudag, 17. ágúst hjá sýslumanni Selfoss. Eftir viðræður við hann kom strax í ljós að erfitt yrði að fá leyfi fyrir keppni – nema að gefnum þeim forsendum að öll keppnishjól verði með skráningarplötur og tryggingar í lagi…!!! Lög og reglugerðir má oft túlka á fleiri en einn veg en í 25 ár hafa allir sýslumenn landsins túlkað lögin á þann hátt að keppnistæki í lokaðri braut sé ekki skráningarskylt. Sýslukona Ólafsfjarðar túlkar málin á annan hátt og hennar viðhorf virðist hafa náð undarlegri rótfestu hjá sýslumanni Selfoss.

Stjórn VÍK undir forystu Hákons formanns vinnur hörðum höndum að lausn þessa máls og hefur verið í sambandi við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og hans ráðunauta til að fá þeirra álit á reglugerðinni. Vélhjólaíþróttamenn eiga orðið Hauka í flestum hornum og nú sem fyrr hefur verið leitað til allra bandamanna til stuðnings okkar málstað, hvort sem það eru önnum kafnir Ráðherrar sem vaktir eru upp um miðjar nætur í óopinberum Evrópuferðum, eða færustu lögmenn lands og þjóðar sem nýlega hafa verið smitaðir af hjólabakteríu okkar.

Von er á frekari upplýsingum í hádeginu á miðvikudag um það hvort leyfi fáist til að halda mót á Selfossi n.k. sunnudag. Til vara hefur verið sótt um leyfi fyrir móti í Ólafsvík sama dag og verður svo fljótt sem auðið er tekin ákvörðun um hvort sú lausn verði farin. Að þriðja kosti frestast keppnin fram yfir Álfsneskeppnina sem haldin verður 23. ágúst.  f.h. stjórnar VÍK, Bjarni Bærings

PS: Ef allt um þrýtur er möguleiki að halda mótið í Vestmannaeyjum á Jóladag, 25. desember. Herjólfur fer til eyja á Þorláksmessu kl. 06.30 og kemur til baka þriðja dag jóla kl. 23.30. Gistiheimilið Hraunið býður 2 fyrir 1 á svefnpokapláss án dýnu og Pizza Plástur býður ókeypis brauðstangir með 16″ flatbökum – ef sótt!!!

Vinnukvöld á Álfsnesi

Jæja konur og menn motocross nefndin og nokkrir aðrir góðir félagsmenn hafa unnið hörðum höndum við uppbyggingu brautarinnar á Álfsnesi. Nú eru komnir 14 pallar í brautina og beygjur hafa verið lagaðar og endurbættar. Vill motocrossnefndin þakka sérstaklega þeim Viggó (eldri) fyrir ótakmörkuðu greiðvikni til handa mótorhjóla mönnum, einnig viljum við þakka Svenna pípara og Víði Ívarssyni sérstaklega en þeir komu báðir með beltavélar(gröfur) og unnu í brautinni.

En betur má ef duga skal, í kvöld á að moka niður dekk, viljum við fá alla sem vetlingi valda til að mæta. Ætlunin er að hver maður grafi niður 20 dekk. Þeir sem koma verða að koma með skóflu með sér. Mæting er kl. 18.00 í Álfsnesi. Motocrossnefnd

Um Sýslumenn og vélhjólasport

„Það hafa komið fram þær hugmyndir í fjölmiðlum upp á síðkastið að fækka beri Sýslumannsembættum á landinu í fjögur. Ég tel að við hjólamenn getum ekki annað en tekið undir þær hugmyndir. Við höfum svo sannarlega orðið þess varir í sumar að reglugerð sú sem okkur er skömmtuð af Dómsmálaráðuneytinu sem rammi að íþrótt okkar, fær jafn misjafna túlkun og embættin eru mörg. Ég vil nefna sem dæmi samskipti okkar við sýslumenn á þessu ári:“

Þannig hefst grein Arons Reynissonar, formanns Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar.

Lesa áfram Um Sýslumenn og vélhjólasport

Ólafsfjörður í hádegisfréttum RÚV

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins voru mál Ólafsfjarðar tekin fyrir.  Undanfarið hefur Sýslumaður verið upp á kant við Vélsleðaklúbb Ólafsfjarðar, verktaka á Ólafsfirði og bæjaryfirvöld.  Menn hafa verið að munnhöggvast misgróflega og eitthvað hefur verið um bréfaskriftir manna á millum.

Varð því úr að Dómsmálaráðuneytið sendi fulltrúa til Ólafsfjarðar til að ræða við Sýslumann en þar sem engin „formleg“ kvörtun hafði borist ráðuneytinu ræddi fulltrúi (eða fulltrúar) ekki við neinn annan.

Niðurstaða ráðuneytisins er sú að Sýslumaður hafi í engu farið hamförum með vald sitt.

Svo virðist sem halda eigi fund í dag eða á næstu dögum milli bæjaryfirvalda og Sýslumanns þar sem bæjaryfirvöld telja aðgerðir sýslumanns skaða hag bæjarins.

Er það von vefsins að fréttastofur taki þetta mál til nánari umfjöllunar.

Meira frá Ólafsfirði

Vefnum barst eftirfarandi frétt en sendanda láðist að geta uppruna hennar.  Þó svo hún komi akstursíþróttum ekkert við þá er hún birt til gamans til hliðsjónar við ævintýri Ólafsfirðinga fyrir nokkrum vikum.

Verktaka meinað að kaupa sprengiefni
Árni Helgason, verktaki í Ólafsfirði, hefur flutt lögheimili sitt úr bænum eftir að sýslumaðurinn þar lét innsigla tóman sprengiefnagám hans. Sýslumaður hefur synjað verktakanum um kaup á sprengiefni.

Strangar reglur gilda um meðferð sprengiefnis og eftir að stolið var nokkur hundruð kílóum af dínamíti í nágrenni Reykjavíkur fyrr í sumar hefur eftirlitið verið hert. Árni Helgason, sem er stór verktaki og vinnur mikið fyrir vegagerðina á Norðurlandi, hefur sumar meðal annars unnið að hitaveituframkvæmdum við Akureyri. Sýslumaðurinn í Ólafsfirði hefur nú synjað Árna um kaupaleyfi fyrir sprengiefni sem Árni segir að hafi tafið verk fyrirtækis síns um allt að einn mánuð.

Ástríður Grímsdóttir sýslumaður staðfestir að hún hafi innsiglað sprengiefnagám Árna, sem ekki fullnægi skilyrðum. Árni Helgasogn sagði í samtali við fréttastofuna að sýslumaður sjái ekki út fyrir lagabókstafinn og geri ekki greinarmun á varanlegri og færanlegri geymslu. Sjálfur eyði ekki tíma sínum í vitleysu, hann vilji vinnufrið og eftir að sýslumaður hafði innsiglað gáminn, eftir að tekið hafi verið úr honum þau tvö kíló af sprengiefni sem þar voru og hafi tvísynjað honum um kaupaleyfi fyrir sprengiefni hafi hann flutt lögheimili sitt til Akureyrar. Þar hafi hann fengið tilskilin leyfi til kaupa á sprengiefni enda hafi hann aðgang að varanlegri geymslu þar.

Greinileg stífni er í máli þessu og talverðir hagsmunir í húfi og hafa bæjaryfirvöld greinilega áhyggjur. Þau hafa reyndar óskað eftir fundi með sýslumanni á morgun af öðru tilefni en þetta mál kemur þar ugglaust til umræðu.

MX á Selfossi frestað

Á Selfossi er hellirigning og spáir veðurstofan áframhaldandi rigningu.  Brautin er nú þegar orðin eitt drullusvað og hefur stjórn VÍK ákveðið að fresta keppninni.

Bolalada