Fjórir stimpluðu sig ekki inn

Fjórir keppendur óku framhjá tímatökuhliðinu í fyrsta hring, án þess að stimpla sig inn.  Voru þetta Ishmael David, Magnús Sveinsson, Einar Sigurðsson og Helgi Valur Georgsson.

Einar Sigurðsson áttaði sig á þessum mistökum eftir 20 metra.  Klossbremsaði og fleygði hjólinu frá sér.  Hljóp til baka (þar sem ekki má aka í öfuga akstursstefnu í braut) og stimplaði sig inn.  Hann náði að stimpla sig inn fyrstan en meðan hann hljóp til baka þá tóku framúr honum fjórir keppendur.  Við þessi hlaup tapaði Einar um 30 sekúndum og má segja að þær hafi haft mikil áhrif á gang keppninnar.  Viggó sigraði með 37 sekúndna forskot á Einar.  Einar lauk síðan deginum með því að sigra í seinni umferðinni og vinna overall úrslit dagsins.

Ishmael David áttaði sig á mistökunum þegar hann hafði ekið 4-500 metra inn í hring 2.  Bað til Guðs um að hann hefði verið stimplaður handvirkt inn en fékk ekki ósk sýna uppfyllta.  Ishmael er enn í dag að gráta mistökin.  Í seinni umferðinni bilaði hjólið hjá Ishmael í fjórða hring en hann var þá í 17 sæti.

Magnús Sveinsson áttaði sig á þessu þegar hann lauk sínum öðrum hring og tók þá eftir því að keppandinn fyrir framan sig stoppaði til að stimpla sig inn.  Magnús var þá í hörku „race“ við annan keppanda og sá ekki mikinn tilgang í að halda áfram þar sem hann var sjálfkrafa orðinn einum hring á eftir.  Hætti hann strax.  Í seinni umferðinni þá lenti hann í vandræðum með kúblinguna eftir ána þar sem olíana var orðin eins og mjólk á litinn.

Helgi Valur var hundfúll yfir þessum mistökum og mætti fyrir bragðið tvíelfdur í seinni umferð og endaði í 8 sæti í þeirri umferð.

Mikil dramatík hjá Suzuki

Strax eftir fjórða hring kom Valdimar Þórðarsson inn í pitt með sprungið að aftan.  Hafði hann tapað um einni mínútu á því að aka með sprungið í brautinni en Valdimar var þá í fjórða sæti.  Fljótlega eftir að vinna hófst við að skipta um dekk komu Reynir Jónsson og síðan Sölvi Árnasson í gegnum hliðið.  Við þetta féll Valdimar úr 4 sæti niður í 6 sæti.

Spennan varð það mikil að Valdimar ákvað að sleppa viðgerð og gaf allt í botn.  Fór af stað með sprungið að aftan.  Tapaði síðan 4,5 mínútum á næsta hring og 2,5 á þeim síðasta eða 7 mínútum í heildina og endaði hann í 12 sæti.

Ef aðstoðarmenn hans hefðu fengið að skipta um dekk og ekki verið lengur en rúmar 6 mínútur að því þá hefði hann endað í 10 sæti.  Hann hefði jafnvel getað endað í 7 sæti ef aðstoðarmennirnir hefðu skipt um dekkið á innan við 5,5 mínútum.  Má því draga þá ályktun að æsingurinn hafi kostað hann heil 5 sæti eða 10 stig til íslandsmeistara.

Rennblautir feðgar

Vefurinn hefur verið að fá fréttir af því að Karl Gunnlaugsson hafi verið að taka myndir við árbakkann ásamt nokkrum mömmum, meðan á keppninni í Baldursdeild stóð.  Aðspurður sagði hann mæðrunum að ef sonur sinn lendir í einhverjum vandræðum þá verður hann að bjarga sér sjálfur.  Hann væri sko ekki mættur þarna til að hjálpa honum.

Fréttir hafa síðan hermt að stuttu síðar hafi Gunnlaugur Karlsson komið á fleygi ferð og flogið á hausinn ofan í ánni.  Áður en menn vissu af þá flaug myndavélin upp í loft, einhver mamman greip vélina og Karl fórnaði sér beint út í á.  Í öllum æsingnum féll hann víst flatur, á bólakaf.

Vefurinn náði samband við Karl Gunnlaugsson en hann var staddur á öðru hundraðinu á M1 í Bretlandi.  Jú rétt, hann lét víst einhver orð falla um að hann ætlaði ekki að fórna sér.  Jú rétt, hann stökk af stað og hann datt á hnén og varð blautur upp á brjóst.

Vefurinn hafði einnig frétt af því að einhver mamman hafi tekið myndavélina hans og reynt að taka myndir af þessu.  Staðfesti Karl að upptakan hefði tekist að hluta.

Svínhagi 2003

Meiri háttar spenna og frábær skemmtun. Í dag fór fram þriðja og fjórða umferð Íslandsmótsins í Enduro. Hátt í hundrað keppendur og með hverjum og einum voru aðstoðarmenn, vinir og fjölskyldur. Má segja að yfir 300 manns hafi verið mættir.

Sigurvegari dagsins var Einar Sigurðsson á KTM. Viggó Viggósson á TM landaði öðru sæti og Haukur Þorsteinsson á Yamaha því þriðja.

Hlutirnir gengu mjög vel fyrir sig. Keppnishaldið og tímatökumálin gengu eins og í sögu. Ekki er algengt að óhöpp verði á þessum keppnum, enda hafa þær verið haldnar skipulega frá 1996.

Þrír keppendur þurftu hinsvegar á aðstoð lækninsins. Einn fékk verkjatöflu þar sem hann tognaði í öxlinni. Annar úlnliðsbrotnaði og sá þriðji fór úr axlarlið. Ekki reyndist unnt að kippa honum í lið þar sem hann var vel stæltur og hafði enginn nægilegt afl til að kippa öxlinni í lið. Var hann fluttur með sjúkrabíl og situr líklega núna, horfandi á sjónvarpið heima hjá sér, með hálfan líkamann stútfullan af vöðvaslakandi lyfjum.

Búið er að birta úrslitin og uppfærða stöðuna í íslandsmótinu. Vefstjóri er í útilegu eins og flestir áhugasamir akstursíþróttamenn. Hausinn er stútfullur af fréttum en grillið er orðið heitt. Vefurinn mun því ekki birta nánar fréttir fyrr en annaðkvöld eða á mánudaginn.

Svínahirðirinn 2003

Alltaf eru fleiri og fleiri að tilkynna þáttöku sína í Svínahirðinum 2003 og keppnisgreinum fer enn fjölgandi. Sú nýjasta er, besti Mýflugnabaninn, en glæsileg verðlaun eru fyrir þann sem nær að drepa flestar mýflugur yfir helgina. Verðlaunin eru viku dvöl fyrir fjóra í tjaldi við Mývatn. Steini Spil hefur staðfest komu sína ásamt hluta af Stimpilhringjunum, en tveir af meðlimum sveitarinnar eru uppteknir við spilamennsku með Rolling Stones og komast því ekki á hátíðina. Annars er bara allt á fullu við að undirbúa komu hátíðargesta og allt er að verða klárt á svæðinu, sólin komin á sinn stað, lömbin farin að jarma og fuglarnir að syngja.  Skemmtinefndin.

Bíddu pabbi, bíddu mín

Menn verða víst að þylja laglínuna, „Bíddu pabbi, bíddu mín, er ég kem…“ til að átta sig á naflastrengnum.  Fyrr í kvöld hringdi eldheitur hjóla-faðir og hafði áhyggjur, jafnt sem ábendingar, um að betur mætti standa að enduro keppnunum.

Eftir „í dag“ leiðréttingar þá eru fleiri skráðir í Baldursdeild en Meistaradeild.  45 á móti 43.  Hinn umhyggjusami faðir, og ekki sá eini, vildi meina að 85cc hjól, sérstaklega þegar fjöld púkanna er farinn að hanga utan í tuginum, eiga ekkert erindi með óstýrlátum feitum köllum á þungum hjólum.  Þvílíkur skaði, ef eitt slíkt lendir ofan á 55kg púka.  Enda eru þau orðin nægilega mörg til að fylla sér keppnisflokk.

Inn í dagsbirtuna koma splunkuný sjónarmið.  Að sjálfsögðu verðum við að bera virðingu fyrir föðurástinni og þeirri umhyggju sem við berum, sem foreldri, fyrir börnum okkar.  Ekki hvarflar að neinum okkar að setja 12-15 ára ungling, niður í miðbæ, og biðja hann að keppast um sömu „verðlaun“ og þá fullorðnu.

Gleymum ekki að þetta er íþrótt, og lítum síðan í kringum okkur.  Aldurinn skiptir máli fram að 16 ára markinu.  Þegar strákarnir / stelpurnar eru hinsvegar orðin 15 ára þá er ekkert því til fyrirstöðu að þau fái að skora á hólm, sér eldri.  Þangað til eru menn að telja hárin á líkamanum og fara í gegnum Séra „Hormón“ Jón.

Reynum síðan að setja hlutina í samhengi.  Maður 2X ára gamall, kaupir sér hjól og ákveður, af einskærum áhuga að taka þátt í keppni.  Maðurinn er vitandi, að hann mun ekki keppa um verðlaun, en vill hann keppa við krakka úr 5 flokk Hauka, eða 4 flokk Vals.  Sem lesandi, yngjum okkur sjálf upp.  12 ára, vil ég keppa um verðlaun.  VERÐLAUN.  Flokkaskipting eftir stærð hjóls er mér einstaklega óhagstæð.  Ég er stærri, feitari, minni, léttari en aðrir jafnaldrar mínir og vegna óhagstæðrar stærðar er ég settur í flokk með mér miklu eldri/yngri keppendum.  Af því að mamma eða pabbi völdu hjólið útfrá líkamstærð (eða getu)

Hvað varðar barnastarf og sköpun á hefð gagnvart yngri kynslóðinni þá erum við ekki einu sinni farnir að marka barnaskóna.  Það er von, að eftir 2-3 ár verðum við búnir að slíta þessum skóm, en þangað til verðum við, þeir eldri, að marka brautina.

Samkeppnishæfni og keppnisharka fer saman á unglingsárum.  Íþróttir hafa þróað með sér flokkaskiptingu sem ýmist setur einstaklinga í yngri árgang eða eldri árgang.  Út frá þessu hafa þróast einstaklingar sem ýmist njóta sín í botn eitt árið en þurfa síðan virkilega að hafa fyrir hlutunum næsta árið.  Hjólamenn eru engin aukvisi og sem slíkir þá hafa þeir verið mótaðir af sínum æskuíþróttum.  Þekkja þeir því vel þetta fyrirkomulag, varðandi 6 flokk, 5 flokk, 4 flokk o.sfrv.  Margar dömurnar hefður hætt, 10 ára, hefður þær þurft að standa andspænis 13 ára, brjóstmiklum risum.  …en þetta hefðu kannski orðið með bestu íþróttamönnum landsins.

Ökuhæfni, úthald, þrautseigja, útsjónarsemi.  Þetta er ekki einkaréttur karlmanna.  Okkur hættir til að fæla kvenfólk frá þessari íþrótt.  RÚV, okkar ágæti miðill, hefur tekið „bærilega“ við sér undanfarið, en ef við lítum aðeins nokkur ár aftur í tímann þá var það hending ef fjallað var um úrslit, eða þaðan af umfjöllun um at milli tveggja kvenn liða.  Við mótorhjólamenn megum ekki lifa á síðustu öld.  Í dag er gríðarlegt líf í kvenna íþróttum.

Árið 2001 mætti margfaldur norðurlandameistari kvenna til keppni í enduro við Húsmúla, Anetta Brindwall, sem náði 36 sæti.  Þeir voru ófáir sem þurftu að játa sig sigraðaðan af henni.

Það breytir ekki því að kvennkyns ökumenn eru ekki að keppa jafnhliða karlkyns ökumönnum.  Að sjálfsögðu veitum við verðlaun fyrir kynin, aðskilin.  Við skulum hinsvegar ekki falla í þá ljótu „svörtu“ gryfju að fylgja eftir einhverri aðskilnaðarstefnu.  Strákar fá verðlaun fyrir 50cc, 85cc, 125cc, 250cc, o.s.frv. en stúlkur fái fyrir „pæjur“.  Meðan strákarnir veifa bikurum fyrir fyrsta sætið, úr hverjum flokki,  þá ber ein stúlka eitthvert nisti, eftir sigur, úr öllum flokkum.

Ef, svo ótrúlega vill til, að þú lesandi ert ennþá fastur við þessa grein, þá þakka ég þér lesturinn.  Þetta er einfaldlega einn af þessum kokteilum, sem á eftir að hrista.

Ef einhver raðast alein(n) í flokk, vegna kyns, hjólavals eða aldurs, þá er ekki hægt að túlka þann gjörning öðruvísi, en eitt af hámörkum hugrekkisins.  Þetta eru frumkvöðlarnir.  Munurinn á andvirði verðlaunanna hleypur á hundraðköllum.  Munurinn á tilgangi og þýðingu þeirra er ómetanlengur.

Skilgreinum flokkana og veitum jafngild (jafn flott) verðlaun fyrir stráka jafnt sem stúlkur.

Gaui

Bolalada