Um síðustu helgi hittust allir á Leirtjörn og myndaðist frábær stemming. Eftir áfallið í vikunni þar sem íscross keppninni var aflýst, tökum við okkur til og upplifum engu síðri dag. Hittumst því allir á Hvaleyrarvatni þessa helgina. Mæting ætti að vera snemma á laugardaginn, þannig að hámarkið náist klukkan 13. Búast má við að mikill fjöldi yfirgefi svellið klukkan 14 eða 14:30 þar sem leikur Íslands við Svía byrjar klukkan 15. Veðrspáin sýnir 3 stiga hita til að byrja með en frystir síðan seinnipartinn. 11 m/s af norðan en þar sem Hvaleyrarvatn liggur neðarlega og í sæmilegu skjóli fyrir öllum áttum nema vestan-átt þá er ekki spurning að við fáum meiriháttar hjólafæri. Naglarnir ættu að bíta vel í mjúkt svellið í 3 stiga hita og jafna aðeins stöðuna við ís-nálarnar og skrúfurnar.
Tilmæli frá lögreglu
Þar sem búast má við einhverjum fjölda á Hvaleyrarvatn á laugardaginn hafa tilmæli komið frá Lögreglunni um að við beinum umferð að vatninu á Krísuvíkurveginn. Þá er keyrður afleggjari af Krísuvíkurvegi inn að vatninu þar sem skilti sýnir: „Hamranesflugvöllur“. Þetta er gert til þess að hlífa hestamönnum og minka álagið á símkerfinu hjá lögreglunni.
Demparamál
Ragnar Stefánsson hefur sent vefnum athugasemdir vegna dempara.
Ég hef sérstaklega tekið eftir því síðustu daga þegar menn hafa byrjað að keyra í alvöru frosti að það er þó nokkuð um það að pakkdósir eru að fara í dempurum !!! Ég vil ekki alhæfa neitt en aðal ástæðan er sú að flestir hugsa aldrei um að það kannski þarf að stunda smá viðhald á dempurum ! Á flestum þeim dempurum sem fara illa í frostinu hefur aldrei verið skipt um oliu og gas……….. Það er reyndar nauðsynlegt að gera „service“ á dempurunum allavega einu sinni á ári, bæði til að halda góðri virkni og eins til að minnka líkurnar á bilun.
Með von um að þessar upplýsingar útskýri eitthvað.
Kveðja Raggi
P.S. velkomið að hringja með spurningar s:5870066
Keppni í íscrossi aflýst
Of fáir keppendur skráðu sig til leiks og verður því ekki grundvöllur fyrir keppninni. Keppninni hefur því verið aflýst.
Stjórnarfundur VÍH var haldinn klukkan 20 í kvöld, um leið og skráningarfrestur á fyrstu íscross keppni ársins rann út. Sjá fundargerð.
gleymið ekki að skrá ykkur
Annaðkvöld, þriðjudagskvöld klukkan 20 verður lokað fyrir skráningu. Hægt verður að skrá sig fram að þeim tíma hér á vefnum eða með því að mæta á Smurstöðina Pennzoil fyrir klukkan 20 á morgunn. Langtímaveðurspá sýnir um 0 gráðu hita, enga úrkomu (snjó) og norðaustan 9m/s sem er ávísun á gott skjól á Hvaleyrarvatni. Eins og fram kom þá verður skráningu lokað klukkan 20 á morgunn og mun þá talning fara fram. Náist ekki að lágmarki 30 keppendur verður keppninni aflýst þar sem ekki verður fjárhagslegur grundvöllur fyrir henni. Náist hinsvegar lágmarks keppandafjöldi mun fjölmiðla-maskína VÍH festast í botni eins og mörgum er eflaust í fersku minni frá því Brekku og mýrarspyrnan var í fyrra. Prentaður verður bæklingur með upplýsingum um keppendur sem verður afhentur öllum áhorfendum, þeim að kostnaðarlausu. Nú þegar er staðfest að þátturinn Mótor á Skjá 1 ásamt Helgarsporti á RÚV verða fyrir aftan sjónvarpsvélarnar. Aðrir blaðamenn og sjónvarpsstöðvar verða ekki boðaðar fyrr en útséð er með hvort af keppninni verður eða ekki.
Svar við athugasemd
Vefnum hefur borist svar við athugasemd á ískeppni frá Steina Tótu.
VÍH og Mývetningar standa sameiginlega að mótaröð í ísakstri sem hefur verið ákveðið að sé til Íslandsmeistara. Þessi ákvörðun er tekin í samráði við VÍK og MSÍ. Þetta er í fyrsta skipti sem slík mótaröð er haldin til Íslandsmeistara og liggja ekki fyrir neinar eldri reglur þar um. Reglur eru samdar upp úr reglum sem notast var við á síðasta ári í æfingakeppni á vegum VÍK. Einnig hefur verið stuðst við reglur erlendis frá og reynslu úr æfingamótum á Mývatni. Sú fullyrðing Steina að það séu til reglur er því röng. Hvað varðar naglafjöldann í verksmiðjuframleiddum dekkjum, þá var stuðst við vörulista frá Trelleborg og Michelin þegar hann var ákvarðaður. Við getum ekki séð að það séu til verksmiðjuframleidd dekk frá þessum framleiðendum með fleiri nöglum. Þetta eru þau dekk sem eru almennt í notkun hérlendis og ríkir almenn sátt um að séu sett saman í flokk. Allur annar dekkjabúnaður innan marka um lengd gadda og hámarksfjölda í dekki fer í opinn flokk. Það er því ekki verið að útiloka neinn frá keppni.
Með vinsemd og kveðju
Aron Reynisson